Íslenski boltinn

Höttur fékk rúmar fimm­tán milljónir úr mann­virkja­sjóði KSÍ í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Höttur spilar í Íslandsmótinu í samstarfi með Hugin frá Seyðisfirði.
Höttur spilar í Íslandsmótinu í samstarfi með Hugin frá Seyðisfirði. Instagram/@hotturhuginn

Höttur á Egilsstöðum fékk langmest af öllum félögum þegar KSÍ úthlutaði úr mannvirkjasjóði fyrir árið 2023.

Höttur fékk næstum því sextán milljónir af þeim fjörutíu sem var úthlutað úr sjóðnum í ár. Knattspyrnusamband Íslands sagði frá skiptingu peninganna í frétt á heimasíðu sinni.

Fjórtán umsóknir bárust í mannvirkjasjóð KSÍ árið 2023 og er heildarkostnaður við áætlaðar framkvæmdir 594 miljónir króna.

Höttur fékk tíu milljónir í endurnýjun á gervigrasi og fimm milljónir og rúmar sjö hundruð þúsund krónur í framkvæmdir við vallarhús.

Breiðablik fékk næst mest en félagið fékk úthlutað pening í þrjár framkvæmdir. Mest átta milljónir í endurnýjun á gervigrasi á Kópavogsvelli, eina milljón og átta hundruð þúsund í ný varamannaskýli á Kópavogsvöll svo og loks fjögur hundruð þúsund í aðgangshlið á Kópavogsvelli. Þetta gera rúmar tíu milljónir króna.

Mannvirkjanefnd KSÍ og starfsmaður mannvirkjanefndar ásamt framkvæmdastjóra KSÍ fóru yfir innsendar umsóknir á fundum nefndarinnar þann 31. maí, 29. júní og 4. júlí.

Í frétt á síðu sambandsins kom fram að unnið var heildstætt mat á öllum umsóknum og þær metnar með hliðsjón af gildandi skorkorti. Þannig var unninn listi með einkunnagjöf sem er grunnurinn að tillögu til stjórnar KSÍ.

Stjórn KSÍ samþykkti tillögu mannvirkjanefndar um eftirtaldar úthlutanir úr sjóðnum:

  • Nafn umsóknar og styrkupphæð:
  • Breiðablik - Endurnýjun á gervigrasi á Kópavogsvelli 8,000,000 kr
  • Breiðablik - Aðgangshlið á Kópavogsvöll 400,000 kr
  • Breiðablik - Ný varamannaskýli á Kópavogsvöll 1,800,000 kr
  • Grindavík - Endurnýjun á Hljóðkerfi 445,925 kr
  • Höttur - Endurnýjun á Gervigrasi 10,000,000 kr
  • Höttur - Framkvæmdir við vallarhús 5,714,782 kr
  • ÍA - búningsklefar kvk 480,000 kr
  • Keflavík - LED vallarklukka 500,000 kr
  • Keflavík - Stúka og Salernisaðstaða 1,808,944 kr
  • Keflavík - Varamannaskýli 1,308,240 kr
  • Selfoss - Breyting á klefum 888,600 kr
  • Vestri - Endurnýjun á gervigrasi 9,000,000 kr



Fleiri fréttir

Sjá meira


×