Fótbolti

Telja 740 fermetra lykil að sigri Valgeirs og félaga

Sindri Sverrisson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson á ferðinni í leik með Häcken. Sænsku meistararnir mæta KÍ frá Færeyjum í dag.
Valgeir Lunddal Friðriksson á ferðinni í leik með Häcken. Sænsku meistararnir mæta KÍ frá Færeyjum í dag. Getty/Michael Campanella

Færeysku meistararnir í KÍ frá Klaksvík freista þess að halda sögulegu Evrópuævintýri sínu áfram með sigri gegn Svíþjóðarmeisturum Häcken í dag, í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Stór munur er á vellinum sem spilað er á Svíþjóð í dag í samanburði við heimavöll KÍ, eða heilir 740 fermetrar, samkvæmt frétt Aftonbladet.

Liðin gerðu markalaust jafntefli í Færeyjum fyrir viku en Svíarnir vonast til þess að með því að hafa meira pláss, á sínum heimavelli, gangi betur að skora í dag. Gervigrasið á Bravida-leikvanginum sem Häcken spilar á þekur 68x105 metra en Djúpumýrarvöllur Færeyingana er ansi lítill eða 64x100 metrar.

Svigrúm er í knattspyrnulögunum til að hafa velli misstóra, og þó að reglur UEFA séu þrengri mega vellir í Evrópukeppnum vera á bilinu 100-105 metra langir, og 64-68 metra breiðir.

Landsliðsmaðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson er einn af leikmönnum Häcken og liðsfélagar hans fagna því að hafa meira pláss, í umfjöllun Aftonbladet:

„Þeir [leikmenn KÍ] munu þurfa að leggja meiri vinnu á sig til að verjast. Það verður erfiðara þá að múra fyrir, eins og þeir eru svo góðir í, þegar völlurinn er stærri. Við fáum meira pláss til að spila á,“ sagði Kristoffer Lund.

Liðin eru í svipuðum sporum og FCK og Breiðablik sem mætast í Kaupmannahöfn í kvöld. Sigurliðin komast í 3. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar en tapliðin færast í undankeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×