Þetta segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við Morgunblaðið. Heilt yfir sé hryðjuverkaógnin minni á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og þar hjálpi að færri leiðir séu til að komast inn í landið. Á móti komi að mannekla innan lögreglunnar og skortur á lagaheimildum geri íslensku lögreglunni erfiðara um vik þegar kemur að því að bregðast við hryðjuverkaógn.
Helsta ógnin hér á landi séu hægri öfgahópar. „Að okkar mati er hún að einhverju leyti til staðar hér. Við verðum að fylgjast mjög vel með þeirri þróun, en hún er úti um allan heim,“ segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið.
Fleiri ábendingar berist en áður vegna öfgahægrimanna. Meðal annars frá erlendum samstarfsaðilum um að þeir hafi séð íslenskar tengingar á spjallborðum á netinu þar sem öfgahægrimenn eigi samskipti.
Haft er eftir Runólfi að lögreglan hafi aldrei fengið mál inn á sitt borð sem tengist íslömskum öfgamönnum búsettum á Íslandi.