„Þetta er ekki sanngjarnt,“ segir Atli Már Haraldsson sem starfaði hjá Ás frá árinu 2014 til ársbyrjunar 2023. „Það liggur við að þau séu að gefa vinnuna sína þarna.“
Ás er rúmlega 40 ára gömul sjálfseignarstofnun sem rekur vinnustofur fyrir fatlað fólk, það er undir hugmyndafræði vinnu og virkni til að efla starfsgetu fólks. Ás rekur meðal annars saumastofu, smíðaverkstæði, pökkunarstöð og gróðurhús. Um 240 manns starfa hjá Ás.
Eins og sést á launaseðli skjólstæðings frá því í fyrra var tímakaupið tæpar 120 krónur. Almennt starfar fólk allt að þrjá daga í viku og allt að sex tíma á dag. Viðkomandi einstaklingur fékk borgaðar 4.197 krónur fyrir 35 klukkutíma vinnu í einum mánuði. Eftir skatt var útborguð upphæð 2.762 krónur.

„Ef þau ætla að borga fötluðu fólki laun þá finnst mér allt í lagi að þau borgi meira en þetta,“ segir Atli Már sem bendir á að ekki séu örorkubæturnar háar, rúmlega 300 þúsund krónur. „Matarverð er orðið svo hátt og húsaleiga líka.“
Reykjavíkurborg eflir en Ás geymsla
Atli, sem er 29 ára gamall, hefur síðan árið 2019 starfað sem aðstoðarleiðbeinandi hjá vinnu og virknimiðstöð Reykjavíkurborgar þar sem fötluðu fólki er gert kleift að starfa á almenna vinnumarkaðinum. Hann segir þetta allt annað en að starfa á vernduðum vinnustað eins og Ás. Launin séu mun betri og hann geti leyft sér meira.
„Ég hef séð ýmsa hluti sem talið var að fatlað fólk gæti ekki gert en getur svo gert. Fólk þarf eftirfylgni því að fólk getur unnið á öllum stöðum sem það vill vinna á. Það er algjört bull að hafa sérvinnustaði,“ segir Atli Már. „Reykjavíkurborg er að efla einstaklingana en Ás er eins og geymsla fyrir fatlað fólk.“