Hugmynd Jóhönnu Maríu um appið Ultimo var valin úr hópi 25 hugmynda grunnskólabarna um allt land sem sú besta. Við útskrift úr 6. bekk í vor fékk hún viðurkenningu á því og hófst svo handa við appið sjálft og hefur í sumar, ásamt foreldrum sínum og vin þeirra Sebastian Breuers, hannað og forritað appið.
Hún segist hafa valið matarsóun til að minnka ruslið í heiminum og til að hjálpa fólki að spara pening.

Tilgangur appsins er að koma í veg fyrir matarsóun með því að skrá inn þann mat sem er til á heimilinu og hvenær hann rennur út. Hægt er að skrá ólíkar geymslur mats eins og ísskáp, frysti eða búr.
„Appið virkar þannig að maður skráir inn þegar eitthvað rennur út og hvað það er. Svo setur maður inn hvenær það rennur út og hvaða geymslu maður vill setja það í og þá sendir það manni skilaboð þegar það eru þrír dagar þangað til það rennur út,“ segir Jóhanna María.



Með því að láta mann vita með góðum fyrirvara hefur maður rúman tíma til að ákveða hvað maður á að gera við matinn, en eitt af því sem Jóhanna vill bæta við appið eru til dæmis uppskriftir.
„Við viljum bæta við fleiri tungumálum og að það komi tillögur fyrir uppskriftir til að nota matinn og að það verði hægt að nota það í Apple,“ segir Jóhanna og að einnig vilji hún að fólk geti skannað strikamerki og þurfi þá ekki sjálf að fylla inn.
Jóhanna ætlar að halda áfram að bæta við appið en það er opið og aðgengilegt öllum sem eru með Android tæki.