Erlent

Veikindi sex­tíu sjósund­s­kappa mögu­lega vegna skólps

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stjórn bresku þríþrautarinnar rannsakar nú orsök veikindanna, en svo virðist sem hreinlæti sjávarins við borgina hafi ekki verið nægilegt.
Stjórn bresku þríþrautarinnar rannsakar nú orsök veikindanna, en svo virðist sem hreinlæti sjávarins við borgina hafi ekki verið nægilegt. EPA

Að minnsta kosti 57 manns veiktust af bæði ælupest og niðurgangi eftir að hafa keppt í sjósundi á heimsmótaröðinni í þríþraut í borginni Sunderland í Bretlandi síðustu helgi.

Um tvö þúsund manns kepptu á mótinu en meðal annars var synt frá Roker-strönd Sunderland-borgar. Tilkynnt hefur verið um veikindi 57 keppenda síðan keppninni lauk. Í frétt The Guardian segir að Heilbrigðiseftirlit Bretlands komi til með að taka sýni úr þeim sem veiktust í leit að sýklum sem gætu hafa orsakað veikindin.

Samkvæmt sýnum sem tekin voru af Umhverfisstofnun Bretlands þremur dögum fyrir keppnirnar mældust 3.900 E.Coli bakteríuþyrpingar í hverjum hundrað millílítrum. Það er 39 sinnum fleiri þyrpingar en mælingar sýndu mánuði áður. E.Coli er bakteríusýking sem getur valdið magapest og niðurgangi, en það voru einkenni flestra þeirra sem veiktust. 

Stjórn bresku þríþrautarinnar sagði hins vegar að niðurstöður Umhverfisstofnunar hafi ekki verið gerðar opinberar fyrr en eftir að keppninni lauk. Sýnin hafi að auki ekki verið tekin á sama svæði og sundkeppnin fór fram og þau hafi að auki tekið eigin sýni af sjónum sem hafi staðist hreinlætiskröfur. 

Keppnin var haldin við strandlengju þar sem miklar umræður hafa skapast vegna gruns um að skólplosun standist ekki reglugerð. Vatnsfyrirtækið Northrumbian Waters þvertekur hins vegar fyrir að veikindin séu tilkomin vegna skólplosunar. Að þeirra sögn gætu engar skólplosanir hafa haft mengandi áhrif á sjóinn síðan í október 2021. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×