Innlent

Kafla­skil í eld­virkninni á Reykja­nes­skaga

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Of snemmt er þó að lýsa yfir goslokum.
Of snemmt er þó að lýsa yfir goslokum. Vísir/Vilhelm

Kaflaskil hafa orðið í eldvirkninni á Reykjanesskaga, samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Engin virkni hefur verið í gígnum síðan á laugardag.

Í tilkynningu segir að gígopið hafi minnkað jafnt og þétt í lok síðustu viku samhliða minnkandi gosóróa sem mældist á nálægum jarðskjálftamælum. Laugardaginn 5. ágúst hafi þá órói á jarðskjálftastöðinni við Hraunsel-Vatnsfell aftur verið kominn í svipaða bakgrunnsvirkni og fyrir gos.

Síðan þá hafi engin virkni verið verið í gígnum. Jarðskjálftavirknin á svæðinu haldi þó áfram en með mun minni ákafa líkt og var fyrir gos. Síðustu hitamerki sáust frá gervitunglamyndum um kvöldið 6. ágúst.

Gosinu ekki lokið

Þrátt fyrir þetta segir að enn sé of snemmt að lýsa yfir goslokum, en af þessu megi ráða að nýr kafli sé að hefjast í eldgosavirkninni á Reykjanesskaga. Enn sé hætta nærri gossvæðinu og afmörkun hættusvæðisins verði enn í gildi. Breytinga megi ekki vænta fyrr en hættumat verður endurskoðað í lok vikunnar.

Veðurstofan mun nú hætta að gefa út spá um gasdreifingu en minnir á að enn geti verið gasmengun við gosstöðvarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×