Innlent

Gengu upp á fjall á versta tíma í gær

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Borgarbúar urðu flestir varir við eldingaveðrið í gær, enda voru þær ansi stórar líkt og þessi aðsenda mynd ber með sér sem tekin var í Grafarholti í Reykjavík í gær.
Borgarbúar urðu flestir varir við eldingaveðrið í gær, enda voru þær ansi stórar líkt og þessi aðsenda mynd ber með sér sem tekin var í Grafarholti í Reykjavík í gær. Mikael Máni Snorrason

Tveir fjall­göngu­garpar sem héldu af stað í göngu upp á Reykja­borg við Mos­fells­bæ í blíð­skapar­verðri síð­degis í gær urðu að koma sér niður með snar­hasti vegna mikils eldinga­veðurs sem gerði skyndi­lega vart við sig í næsta ná­grenni.

„Við skoðuðum veður­spána áður en við lögðum af stað og litum til himins. Þá var auð­vitað bara heið­skýrt og sól,“ segir Thelma Rún van Erven sem gekk upp á fjall á­samt vin­konu sinni Berg­nýju Ár­manns­dóttur í gær. Eins og Vísir greindi frá í gær barst veðrið innan úr landi með norðan­átt til höfuð­borgar­svæðisins. Veður­fræðingur sagðist mælast til þess að fólk haldi sig innan­dyra í slíku veðri.

Þær Thelma og Bergný voru á svipuðum slóðum og eldingin sem fönguð var á myndinni í fréttinni hér fyrir neðan. 

Bongó blíða þegar þær lögðu af stað

„Við göngum inn Húsa­dal við Mos­fells­bæ um hálf fjögur leytið. Þá var veðrið fínt en þegar við komum innar í dalinn þá förum við að heyra drunur. Við hugsuðum báðar hvort þetta væru þrumur en hugsuðum með okkur að það gæti ekki verið. Það væru svo sjaldan þrumur á Ís­landi!“

Þær hafi þá tekið eftir því að það hafi verið orðið ansi þung­skýjað yfir Móskarðs­hnjúkum. Fyrir ofan þær hafi hins­vegar verið heið­skýrt og þær komnar hálfa leið og því á­kveðið að klára gönguna.

„Þegar við komum ofar þá heyrum við þetta alltaf koma nær. Svo þegar við erum akkúrat að toppa þá er eins og himin og jörð séu að farast. Ég hef aldrei heyrt svona háar þrumur. Okkur brá sjúk­lega mikið og það var nokkuð ljóst að það var kominn tími á að koma sér niður.“

Þær Thelma Rún og Bergný voru fljótar að koma sér niður þegar þær gerðu sér grein fyrir því að skollið væri á eldingaveður.

Ekkert annað hafi verið í kring, enda mikill berangur uppi á Reykja­borg og þær vin­konur því lík­lega verið hæsti punkturinn á svæðinu, sem eldingar leita í.

„Þannig að við löbbuðum svo bara rösk­lega niður og þá fór að helli­rigna. En um leið og við vorum komnar að­eins neðar þá urðum við að­eins ró­legri. Svo þegar við erum komnar í bílinn þá opnum við símann og sjáum fréttirnar af því fólk er beðið um að bíða með fjall­göngur og svaka­lega mynd af eldingu sem var bara þarna rétt fyrir aftan Reykja­lund og við vorum ein­mitt sirka þar.“

Thelma segir veðrið svo hafa gengið yfir á ör­skömmum tíma. Þær vin­konur hafi farið í sund í Mos­fells­bæ að göngu lokinni og þá var sólin mætt aftur á svæðið.

Sól og blíða í upphafi ferðar, rétt áður en svört ský mættu.
Thelma og Bergný segja skýin hafa verið fljót að fylla himininn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×