Lífið

„Sugar Man“ er fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Leikstjórinn Malik Bendjelloul og Sixto Diaz Rodriguez á Sunbdance-kvikmyndahátíðinni árið 2012.
Leikstjórinn Malik Bendjelloul og Sixto Diaz Rodriguez á Sunbdance-kvikmyndahátíðinni árið 2012. EPA

Hinn dularfulli bandaríski tónlistarmaður, Sixto Diaz Rodriguez, einnig þekktur sem Sugar Man, er látinn, 81 árs að aldri.

Greint er frá andlátinu á heimasíðu Rodriguez. „Það er með mikilli sorg sem við greinum frá því að Sixto Diaz Rodriguez lést fyrr í dag. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til dætra hans – Söndru, Evu og Regan – og annarra í fjölskyldu hans,“ segir í tilkynningunni.

Rodriguez rataði í sviðsljósið á ný með tilkomu heimildarmyndarinnar Searching for Sugar Man frá árinu 2012 sem vann til Óskarsverðlauna og BAFTA-verðlauna. Sænski leikstjórinn Malik Bendjelloul stóð að gerð myndarinnar þar sem segir söguna af því hvernig Rodriguez hafi stefnt á tónlistarferil og á áttunda áratugnum hljóðritað plötu sem framleiðendur höfðu tröllatrú á. Þóttu textar hans af einhverjum minna á texta Bob Dylan.

En ekkert verður hins vegar af vinsældum Rodriguez og hverfur hann í gleymskunnar dá. Nema hvað, platan verður vinsæl í Suður-Afríku og á tíunda áratugnum fara svo sögusagnir á kreik um að Rodriguez sé látinn. 

Í myndinni segir svo frá tveimur aðdáendum tónlistarmannsins, þeim Stephen Segerman og Craig Bartholomew Strydom, og leit þeirra að Sugar Man þar sem þeir reyna að komast að því hvar hann sé niður kominn og hvort að hann sé raunverulega látinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.