Innlent

Lyklamaðurinn fékk 45 daga fangelsisdóm

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ein af rispunum 23 sem voru tilkynntar á Akureyri fyrstu helgina í júlí.
Ein af rispunum 23 sem voru tilkynntar á Akureyri fyrstu helgina í júlí.

Karlmaður búsettur á Akureyri hefur verið dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir að hafa unnið skemmdarverk á tveimur bílum í bænum í febrúar með því að rispa lakk bílanna með húslyklum.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í lok júlí. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er um að ræða sama karlmann og er grunaður um að hafa skemmt á þriðja tug bíla með sambærilegum hætti fyrstu helgina í júlí.

Um er að ræða mikla ferðahelgi meðal annars á Akureyri þar sem N1 mót ellefu og tólf ára drengja í knattspyrnu fer fram. 23 bílar hið minnsta voru lyklaðir umrædda helgi og beindist grunurinn fljótlega að fyrrnefndum karlmanni.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra að hann eigi sakaferil allt aftur til ársins 2007. Hann hlaut síðast dóm fyrir þjófnað í mars síðastliðinn. Um var að ræða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára. Skilorð sem hann rauf með brotum sínum í febrúar.

Þá rispaði hann lakk bíls sem var lagt fyrir utan Glerártorg og svo tveimur dögum síðar rispaði hann lakk bíls fyrir utan World Class við Strandgötu. Var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot sín.

Börkur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, tjáði fréttastofu í júlí að karlmaðurinn hefði játað á sig hluta skemmdanna í júlí. Reikna má með því að maðurinn verði ákærður fyrir þau brot sín og hans bíði því þyngri refsing þegar málið verður tekið fyrir hjá héraðsdómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×