Innlent

Hyggst endur­­reisa hús sitt við Blesu­gróf á grunni bruna­­rústanna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Enn á eftir að rífa það sem eftir stendur af húsinu.
Enn á eftir að rífa það sem eftir stendur af húsinu. Vísir/Vilhelm

Eig­andi tveggja hæða timbur­húss sem gjör­eyði­lagðist í bruna við Blesu­gróf 25 í Foss­vogs­hverfi Reykja­víkur í lok júní hyggst endur­byggja húsið. Enn á eftir að rífa það sem eftir stendur af húsinu og segist eig­andinn bíða þess að fá leyfi til þess.

„Ég hef eigin­lega bara verið að sleikja sárin síðan þetta gerðist,“ segir Steinunn Ósk Óskars­dóttir, eig­andi að Blesu­gróf, sem sótt hefur um leyfi til skipu­lags­full­trúa Reykja­víkur­borgar um að byggja sam­bæri­legt hús á sama sökkli og þess sem fyrir var á lóðinni.

Eldur kom upp í húsinu þann 27. júní síðast­liðinn út­frá raf­magns­hlaupa­hjóli sem var í hleðslu og var allt til­tækt slökkvi­lið höfuð­borgar­svæðisins kallað á vett­vang. Steinunn sagðist við til­efnið vera í á­falli enda um æsku­heimili barna hennar að ræða, en hún hafði átt húsið í rúm 24 ár og missti al­eigu sína.

„Þetta er allt saman á byrjunar­stigi. Það á eftir að rífa það sem enn er eftir af húsinu, en ég á­kvað að hafa sam­band við borgina og fá þetta á hreint, hvað væri hægt að gera,“ segir Steinunn.

Hún segir það sér hjartans mál að geta endur­byggt húsið, sem henni hafi þótt afar vænt um. Hún hafi haft í hyggju að friða húsið, sem upp­runa­lega hafi verið reist á Hverfis­götu á 19. öld, að sögn Steinunnar með viði úr segl­skipinu Jamestown sem rak á land í Höfnum árið 1881.

Það sem eftir er af gamla húsinu er gjörónýtt.Vísir/Vilhelm

Bíður eftir því að fá að rífa gamla húsið

„Þannig að þetta var mér gríðar­legt per­sónu­legt á­fall,“ segir Steinunn sem kveðst ekki vera búin að á­kveða hvort nýtt hús verði ná­kvæm eftir­mynd þess gamla.

„Mér þótti svo of­boðs­lega vænt um þetta hús og hafði lagt í það mikla vinnu í gegnum árin,“ segir Steinunn sem hafði haft húsið í leigu en hugðist sjálf flytja inn um mánaðar­mótin júní, júlí.

Steinunn segist hafa leitað sér ráð­gjafar lög­fræðinga vegna trygginga­mála. Hún hafi verið tryggð og segist því ekki hafa á­hyggjur af þeim málum. Tafir hafi orðið á öllu vegna sumar­leyfa.

„Þannig það hefur eigin­lega of lítið gerst. Ég bíð bara eftir því að það fáist leyfi til þess að rífa það, því mér finnst það leiðin­legt gagn­vart ná­grönnunum að þurfa að hafa þetta svona. “

Steinunn segist eftir að ákveða hvort hún muni byggja nýja húsið í mynd þess gamla.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×