Enski boltinn

Liver­pool kaupir Moi­sés Ca­icedo fyrir metfé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Moisés Caicedo í leik með Brighton & Hove Albion á undirbúningstímabilinu.
 Moisés Caicedo í leik með Brighton & Hove Albion á undirbúningstímabilinu. Getty/Adam Hunger

Moisés Caicedo verður væntanlega orðinn leikmaður Liverpool í dag og löng bið stuðningsmanna Liverpool eftir varnarsinnuðum miðjumanni endar því óvænt og snögglega.

Caicedo hefur verið á leiðinni til Chelsea í allt sumar en Liverpool var tilbúið að borga það sem Brighton vill fá leikmanninn.

Fabrizio Romano sagði frá því í nótt að Liverpool sé tilbúið að borga allt að 110 milljónum punda fyrir leikmanninn og gera hann að þeim dýrasta sem enskt félag hefur keypt.

Romano segir að Liverpool sé búið að skipuleggja læknisskoðun og að Jurgen Klopp muni ræða við leikmanninn áður en hann mætir á blaðamannafund á eftir.

Breska ríkisútvarpið segir að kaupverðið sé 111 milljónir punda og með því falli met Enzo Fernandez sem Chelsea borgaði 107 milljónir punda fyrir í janúarglugganum.

Liverpool hefur nú keypt þrjá miðjumenn fyrir 206 milljónir punda í sumar en áður hafði liðið keypt Alexis Mac Allister (35 milljónir) og Dominik Szoboszlai (60 milljónir). Hinn 21 árs gamli Moisés Caicedo verður því annar miðjumaður Brighton sem Liverpool kaupir í sumar.

Liverpool hafði boðið þrisvar í Belgann Roméo Lavia en Southampton hafnaði öllum þeim tilboðum.

Þegar fréttist af því að Chelsea hefði gert hlé á eltingarleiknum sínum við Caicedo og boðið þess í stað í Lavia þá svaraði Liverpool með því að bjóða í Caicedo í staðinn.

Svo skemmtilega vill til að Chelsea og Liverpool mætast í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×