Innlent

„Þú ýtir ekki á takka og þá er komin ný virkjun“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra segir verk að vinna til að koma í veg fyrir raforkuskort hérlendis.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra segir verk að vinna til að koma í veg fyrir raforkuskort hérlendis. Vísir/Vilhelm

Um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra segir að gríðar­lega margt sé í pípunum til að tryggja að ekki komi til raf­orku­skorts hér á landi, líkt og for­stjóri Lands­virkjunar hefur viðrað á­hyggjur sínar af. Hann segir hlutina taka tíma en kyrr­staðan hafi verið rofin.

Hörður Arnar­son, for­stjóri Lands­virkjunar, sagði fyrr í sumar að það stefni í erfiðan raf­orku­skort á næstu árum, ef ekki verður losað um þau virkjana­á­form sem sitja föst í kerfinu. Guð­laugur Þór Þórðar­son, um­hverfis-, orku- og loft­lags­ráð­herra segir vandann vera þann að lítið sem ekkert hafi gerst í virkjana­málum undan­farin tíu ár.

„Ég hef ein­mitt verið dug­legur að benda á að það vantar græna orku. Vandinn er sá að á síðustu tíu árum hefur bara eigin­lega ekkert gerst. Við erum að tala um að það hafa bæst við innan við 30 megawött við kerfið og þetta hefur verið að taka allt of langan tíma.“

Guð­laugur segir að í pípunum séu yfir 300 megawött í stækkunum, eða því sem nemi hálfri Kára­hnjúka­virkjun. Þá sé unnið að gerð frum­varps sem miði að því að auð­velda fólki að spara orku auk þess sem ráðu­neytið muni sam­eina stofnanir til að ein­falda um­hverfi orku­mála hér­lendis.

„Þó það sé mikið í pípunum núna þá er það ekki nóg. Það kemur vonandi á næstu árum en á þessum stutta tíma sem ég hef verið í ráðu­neytinu þá hefur þessi kyrr­staða verið rofin. Nú eru um 1300 megawött í nýtingar­flokki og í ofan­á­lag miðað við mínar bestu upp­lýsingar yfir 300 megawött í stækkunum.“

Vanda­málið sé hins ­vegar að þetta taki tíma. Verk­efnið sé að ein­falda leyfis­veitinga­ferli vegna virkjana og gera það skil­virkara og segist Guð­laugur nú vinna að frum­varpi í ráðu­neyti sínu sem lagt verði fram á þingi í haust og miði að því.

„Ég er bara á­nægður að fólk sé að vakna, því ég hef verið að segja þetta frá því að ég tók við þessu em­bætti og fram­kvæmt líka. En þú ýtir ekki á takka og þá er komin ný virkjun, þetta virkar ekki þannig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×