Lindin er tískuverslun í eigu Bryndísar Brynjólfsdóttur en verslunin hefur verð starfrækt frá 15. febrúar 1974 og fagnar því 50 ára afmæli á nýju ári.
Nú eru málverk til sýnis í gluggum verslunarinnar en þeir þykja sérstaklega góðir undir sýningu, sem þessa enda við fjölfarna umferðargötu á Selfossi.
„Þetta eru olíuverk og blönduð tækni og í rauninni ekkert annað. Þetta eru nýjar og gamlar myndir, bæði abstrakt og í rauninni mála ég yfirleitt það sem mér dettur í hug. Ég er áhugamanneskja, sem er búin að fara á mörg námskeið bæði hérlendis og erlendis og ætla bara að halda því áfram,” segir Ásdís Hoffritz, listakona á Selfossi, sem málaði öll verkin.
Myndirnar hjá Ásdísi eru allskonar eins og sagt er en myndin af úlfunum hefur vakið sérstaka athygli, það stoppa flestir við hana og horfa í augunum á úlfunum.

Starfsfólk Lindarinnar er mjög ánægt með að vera komin með málverkin í gluggana en þá er hægt að skoða fötin á gínunum og málverkin í leiðinni allan sólarhringinn.
„Við eigum þessa stóru fínu glugga þannig að það er um að gera að nýta þá miklu betur. Mér finnst fötin og málverkin smella mjög vel saman og þetta er bara mjög, mjög skemmtilegt,” segir Kristín Hafsteinsdóttir, verslunarstjóri Lindarinnar
Og sérðu aukna umferð við verslunina?
„Já, rúnturinn núna eru gluggarnir í Lindinni að skoða þessi fínu málverk og það er líka svo mikið um gangandi fólki hérna fram hjá, þannig að þetta vekur virkilega athygli,” bætir Kristín við.
