Portúgalinn Ivo Braz er genginn til liðs við Mosfellsbæjarliðið en hann hefur spilað með Ægi í sumar.
Afturelding var komið með yfirburðarforystu í deildinni eftir 9-0 sigur á Selfossi 21. júlí en hefur síðan aðeins náð einu stigi í hús úr þremur leikjum. Eftir Selfossleikinn var Afturelding með átta stiga forskot en nú munar aðeins þremur stigum á Aftureldingu og Skagamönnum í öðru sætinu.
Nýi leikmaður Aftureldingar þekkir einstaklega vel til í deildinni og hann hefur skorað næstum því helming marka síns liðs í sumar.
Ivo Alexandre Pereira Braz er 28 ára gamall kant- og miðjumaður en hann hefur skorað sjö mörk með Ægi í Lengjudeildinni í sumar.
Áður en Ivo kom til Íslands í vor þá lék hann í úrvalsdeildinni í Litháen í tvö ár.
Ivo Braz skoraði fyrir Ægi í leik á móti Aftureldingu fyrr á þessari leiktíð en Afturelding vann þann leik 4-1.