Hótunin er sögð koma fram í yfirlýsingu frá al-Qaeda-samtökunum. Í henni felst stríðsyfirlýsing á hendur Danmörku og Svíþjóð, að sögn danska ríkisútvarpsins DR. Það hefur eftir dönsku leyniþjónustunni PET að brennur á Kóraninum hafi dregið neikvæða athygli að löndunum.
Jacob Kaarsbo, fyrrverandi greinandi hjá dönsku leyniþjónustunni, segir að taka beri ógnina mjög alvarlega. Þetta sé stærsta öryggisógn við Danmörku frá Múhammeðsteikningunum árið 2008. Þá kallaði danskur skopmyndahöfundur yfir Danmörku reiði íslamskra öfgamanna með því að birta teikninga af spámanni þeirra.
„Þetta er almennt ákall um árásir á Danmörku og Dani. Við vitum ekki hversu víða það nær, hversu áhrifamikið það er eða í hvaða kreðsum,“ segir hann við DR.
Danska utanríkisráðuneytið segist fylgjast með öryggismálum við sendiráð Danmerkur erlendis. Af öryggisástæðum ræði það ekki hvort eða til hvaða ráðstafana sé gripið þar.
Hægriöfgamenn sem hafa andúð á múslimum hafa ítrekað staðið fyrir brennum á Kóraninum, helgiriti múslima, í Danmörku og Svíþjóð undanfarin misseri. Slíkar brennur í Svíþjóð urðu meðal annars ástæða þess að tyrknesk stjórnvöld neituðu að leggja blessun sína yfir Atlantshafsbandalagsaðild landsins. Mótmælendur í Írak réðust einnig á sænska sendiráðið þar fyrr í sumar.
Sænsk stjórnvöld hafa talið að þau hafi ekki heimild til þess að banna samkomur þar sem Kóraninn er brenndur þar sem slíkt rúmist innan tjáningarfrelsi borgaranna.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegum inngangi hennar sagði ranglega að Ríki íslams hefði kallað eftir árásum.