Íslenski boltinn

Ste­ven Lennon í Þrótt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steven Lennon mun spila með Þrótti út tímabilið.
Steven Lennon mun spila með Þrótti út tímabilið. Þróttur Reykjavík

Það er nóg um að vera í Laugardalnum í dag en rétt í þessu staðfesti Þróttur Reykjavík að skoski framherjinn Steven Lennon muni spila með liðinu á láni út tímabilið. Skömmu þar áður var tilkynnt að landsliðskonan Elín Metta Jensen hefði tekið skóna af hillunni og myndi spila með kvennaliði félagsins til 2024.

Félagaskiptagluggi knattspyrnuliða landsins lokar í kvöld og ákváðu Þróttarar að blása í herlúðrana. Eftir að hafa tilkynnt komu Elínar Mettu í Laugardalinn þá liðu ekki margar mínútur þangað til tilkynnt var um komu Lennons á láni frá FH í Bestu deild karla.

Hinn 35 ára gamli Lennon hefur spilað með FH frá árinu 2014 og raðað inn mörkum. Hann hefur einnig leikið með Fram hér á landi. Framherjinn kemur til Þróttar á láni út leiktíðina en verður samningslaus í haust.

„Steven hefði viljað spila meira en hann hefur gert fyrir FH-liðið í sumar og eftir að við tókum samtalið þá var það sameiginleg niðurstaða að leyfa honum að fara,“ segir í tilkynningu FH um vistaskipti leikmannsins.

Hjá Þrótti hittir Lennon fyrir Sam Hewson, fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Fram og FH, en sá er í dag spilandi aðstoðarþjálfari Þróttar.

Þróttur er sem stendur í 10. sæti Lengjudeildar, aðeins stigi fyrir ofan fallsæti þegar 16 umferðir eru búnar.


Tengdar fréttir

Elín Metta í Þrótt

Landsliðskonan fyrrverandi Elín Metta Jensen hefur ákveðið að taka takkaskóna af hillunni og er genginn í raðir Þróttar Reykjavíkur í Bestu deild kvenna í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×