Erlent

Sækist eftir að sitja áfram á Spáni

Kjartan Kjartansson skrifar
Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar, stefnir á enn eina minnihlutastjórnina.
Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar, stefnir á enn eina minnihlutastjórnina. Vísir/EPA

Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar og leiðtogi sósíalista, segist ætla að biðja neðri deild þingsins um að leggja blessun sína yfir nýja minnihlutastjórn í kjölfar þingkosningana í síðasta mánuði. Hvorug blokkin í spænskum stjórnmálum náði hreinum meirihluta og stjórnarmyndun gengur treglega.

Sósíalistaflokkur Sánchez fékk næstflest atkvæði í kosningunum 23. júlí á eftir Lýðflokknum, stærsta hægri flokknum. Minnihlutastjórnir undir forystu Sánchez hafa stýrt Spáni frá byrjun árs 2020. 

Sánchez sagði ekki hverjir samstarfsflokkarnir yrðu í nýju minnihlutastjórninni sem hann vill mynda, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Augljósi kosturinn er þó Sumar, bandalag flokka sem eru vinstra megin við Sósíalistaflokkinn. Hann þyrfti þó einnig að reiða sig á minni héraðsbundna flokka.

„Ég ætla að sækjast eftir trausti þingsins til þess að mynda framsækna ríkisstjórn,“ sagði Sánchez í ávarpi til þingmanna flokksins í dag fyrir þingsetningu á morgun.

Yolanda Díaz, leiðtogi Sumar, sagði sitt fólk vinna að því að endurnýja stjórnarsamstarfið við sósíalista.


Tengdar fréttir

Allt í hnút í spænskum stjórn­málum

Engin ríkisstjórn er enn í kortunum á Spáni. Sá flokkur sem vann stærsta kosningasigurinn í þingkosningunum um síðustu helgi á þó litla sem enga möguleika á að mynda ríkisstjórn. Og það stjórnarmynstur sem helst blasir við sósíalistum gæti orðið flokknum dýrkeypt.

Stjórnarkreppa að loknum kosningum á Spáni

Stjórnarkreppa blasir við á Spáni eftir að hvorugri blokkinni til hægri og vinstri í spænskum stjórnmálum tókst að vinna hreinan meirihluta á spænska þinginu í kosningum sem fram fóru í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×