Fram kemur í tilkynningu að Ariana Katrín muni hefja störf hjá safninu um næstu mánaðarmót. Ariana Katrín er með meistaragráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Þar lagði hún sérstaka áherslu á safnfræðslu. Lokaritgerð hennar fjallaði um listsmiðjur með grunnskólanemendum í safnaumhverfi.
Einnig hefur Ariana Katrín numið myndlýsingar við Academy of Art University í San Francisco í Bandaríkjunum, listfræði við Háskóla Íslands og myndlist við Instituto Lorenzo de Medici í Flórens á Ítalíu.
Ariana Katrín hefur starfað við sérkennslu hjá Brúarskóla, almenna kennslu í Flataskóla, sem leiðbeinandi á leikskólanum Grænuborg og deildarstjóri á leikskólanum Gullborg. Á þeim síðastnefnda stýrði hún jafnframt listasmiðju og hlaut skólinn í hennar tíð Menningarfána Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi menningarstarf.
Þá hefur hún stýrt námskeiðum um sköpun í leikskólastarfi fyrir leikskólakennara og komið að ólíkum listasmiðjum og sérverkefnum á ýmsum stöðum. Auk þess hefur hún starfað sjálfstætt sem myndskreytir og hönnuður.
Fréttin hefur verið uppfærð.