„Okkur óraði ekki fyrir þessum frábæru viðtökum á afmælisdaginn, en nú eru það margar pantanir í bið að við getum því miður ekki tekið við fleiri og neyðumst til að loka öllum verslunum okkar vegna álags,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Domino's.
Allar pantanir sem þegar hafi borist verði þó afgreiddar.
Greint var frá því fyrr í dag að í tilefni af þriggja áratuga afmæli veitingahúsakeðjunnar hér á landi yrði boðið upp á pitsur á sama verði og árið 1993.
Svo virðist sem það sé ekki aðeins álag á pöntunarkerfi Domino's. Ef miða má við myndir frá Garðatorgi virðist fólk standa í löngum röðum til þess að sækja pitsuna sína.
