Spánverjar eru heimsmeistarar kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögunni eftir 1-0 sigur gegn Englendingum í úrslitaleik HM í Sydney í dag.
Þrátt fyrir að lítið hafi verið skorað var leikurinn hin mesta skemmtun og augljóst að mikið var undir. Englendingar fengu fyrsta almennilega færi leiksins þegar Lauren Hemp fékk boltann inni á teig og lét vaða, en skot hennar small í þverslánni.
Liðin skiptust á að sækja næstu mínútur, en á 29. mínútu leiksins stálu þær spænsku boltanum inni á miðsvæðinu og komu sér á ógnarhraða í átt að vítateig Englendinga. Mariona Caldentey renndi þá boltanum innfyrir á Olgu Carmona sem setti hnitmiðað skot meðfram jörðinni í fjærhornið, 1-0.
Spánverjar voru svo hársbreidd frá því að tvöfalda forystuna fyrir hálfleikshléið þegar Salma Paralluelo setti boltann í stöngina. Inn fór hann þó ekki og staðan því 1-0, Spánverjum í vil, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Enska liðið færði sig framar á völlinn í síðari hálfleik til að freista þess að finna jöfnunarmarkið. Eftir rúmlega klukkutíma leik fóru Spánverjar þó í sókn sem endaði með því að Kiera Walsh var dæmd brotleg inni í teig fyrir að handleika knöttinn eftir langa skoðun myndbandsdómara.
Jennifer Hermoso fór á punktinn fyrir spænska liðið, en Mary Earps var eins og köttur í markinu, fleygði sér í vinstra hornið, greip boltann og hélt enska liðinu á lífi.
Englendingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn, en þétt vörn spænska liðsins gaf engin færi á sér. Eftir rúmlega 13 mínútna uppbótartíma var að lokum flautað til leiksloka og úrslitin voru ráðin. Spánverjar sigruðu leikinn 1-0 og eru heimsmeistarar kvenna í fyrsta sinn í sögunni.