Fótbolti

Þjálfari Spánar kleip í brjóst sam­starfs­konu í úr­slita­leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vilda grípur um brjóst samstarfskonu sinnar.
Vilda grípur um brjóst samstarfskonu sinnar.

Það er ekki bara forseti spænska knattspyrnusambandsins sem hefur komist í fréttirnar fyrir ósæmilega hegðun eftir að Spánn varð heimsmeistari kvenna heldur einnig þjálfarinn.

Mikið hefur verið rætt og ritað um rembingskoss sem Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, rak Jennifer Hermoso eftir úrslitaleik HM í fyrradag. Spánverjar unnu leikinn með einu marki gegn engu og urðu þar með heimsmeistarar í fyrsta sinn.

Ekki nóg með að Rubiales hafi kysst Hermoso á munninn því hann hélt áfram að kyssa leikmenn spænska liðsins niðri á vellinum, þar á meðal Olgu Carmona sem skoraði eina markið í úrslitaleiknum. Þá greip Rubiales um klofið á sér þegar hann fagnaði heimsmeistaratitlinum í heiðursstúkunni. Skammt frá stóð spænska drottningin.

Jorge Vilda, þjálfari spænska liðsins, kom sér einnig í fréttirnar fyrir ósæmilega hegðun eftir úrslitaleikinn. Eftir að Carmona skoraði markið í úrslitaleik greip Vilda nefnilega í brjóst samstarfskonu sinnar í spænska þjálfaraliðinu. Hann kom fyrst við öxlina á henni en færði hana svo á brjóstið.

Vilda er umdeildur en frægt er þegar fimmtán leikmenn spænska landsliðsins skrifuðu undir bréf þar sem þjálfunaraðferðir hans voru harðlega gagnrýndar og að hann hafi haft slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu leikmanna.

Aðeins örfáir af leikmönnunum fimmtán sem sendu bréfið voru í heimsmeistaraliði Spánar. Þá vakti það talsverða athygli að leikmenn liðsins fögnuðu ekki með Vilda og starfsliðinu eftir úrslitaleikinn.


Tengdar fréttir

Tjáir sig á ný um rembings­kossinn heims­­fræga

Jenni­fer Her­mos­o, leik­maður spænska lands­liðsins í fótbolta, segir að rembings­koss sem hún fékk á munninn frá for­seta spænska knatt­spyrnu­sam­bandsins hafi að­eins verið hans leið til að sýna ást­úð sína í kjöl­far þess að Spán­verjar tryggðu sér heims­meistara­titil kvenna í fót­bolta. Hún gerir lítið úr at­vikinu í yfir­lýsingu sem barst AFP frétta­veitunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×