Enski boltinn

Enn á ný býður Liverpool of lágt i leikmann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
André fagnar marki með liðsfélaga sínum hjá Fluminense.
André fagnar marki með liðsfélaga sínum hjá Fluminense. Getty/Wagner Meier

Braslíska félagið Fluminense hefur hafnað tilboði enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool í einn leikmann sinn.

Liverpool á að hafa boðið 30 milljónir evra í miðjumanninn André en samkvæmt heimildum ESPN var tilboðið of lágt að mati Brasilíumannanna.

André er 22 ára gamall varnartengiliður sem hefur spilað einn landsleik fyrir Brasilíu. Hann hefur spilað 40 leiki með Fluminense á tímabilinu en ekki enn komið að marki.

Þetta er langt frá því að vera fyrsta tilboð Liverpool sumar sem er hafnað. Þremur tilboðum Liverpool i Romeo Lavia var meðal annars hafnað áður en Liverpool missti af Lavia lestinn og hann fór til Chelsea.

Fluminense er líka ekki sagt vilja láta brasilíska landsliðsleikmanninn fara á þessum tímapunkti þar sem félagið vill að hann klári tímabilið. Liverpool gæti því reynt að kaupa hann í janúar í staðinn.

Það eru fréttir um það að Liverpool og André hafi þegar samið um kaup og kjör.

Fluminense er komið í átta liða úrslit Copa Libertadores keppninnar þar sem liðið mætir Olimpia frá Paragvæ.

Liverpool er enn á höttunum eftir liðstyrk á miðjuna eftir að fjöldi miðjumanna yfirgaf félagið í sumar og miðjan var ekki alltof sannfærandi á síðustu leiktíð.

Liverpool fór á fullt að leita eftir að félagið seldi þá Fabinho og Jordan Henderson til Sádí Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×