Prigozhin, sem fór fyrir Wagner-málaliðahópnum og gerði skammvinna uppreisn gegn hermálayfirvöldum í Rússlandi, er sagður hafa látist í flugslysi í gær. Hvað varðar orsakir slyssins beinast sjónir flestra að Pútín.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði meðal annars í gær að fregnirnar kæmu ekki á óvart og að fátt gerðist í Rússlandi án aðkomu forsetans.
Pútín hefur flutt tvö erindi opinberlega frá því að greint var frá dauða Prigozhin. Hann flutti ræðu í Moskvu til að minnast þess að 80 ár væru liðinn frá orrustunni við Kursk og þá ávarpaði hann leiðtogafund BRICS-ríkjanna.
Prigozhin kom hvergi við sögu en margir höfðu spáð því að uppreisnarforinginn ætti skammt eftir þegar hann lét af fyrirætlunum sínum um að ráðast inn í Moskvu. Menn spyrja sig nú, ekki að því hvort Pútín ber ábyrgð á dauða hans, heldur hvers vegna forsetinn beið svo lengi með að beita refsivendinum.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í morgun að það væri engin tilviljun að menn horfðu til Kreml þegar fyrrverandi bandamaður Pútín félli skyndilega til jarðar. Um væri að ræða þekkta atburðarás í kringum andstæðinga forsetans; dauðsföll, dularfull sjálfsvíg, fall úr glugga.
Pútín birtist öðrum leiðtogum BRICS-fundarins í gegnum fjarfundabúnað en fundurinn fer fram í Suður-Afríku. Forsetinn er lítt á faraldsfæti vegna alþjóðlegrar handtökuskipunar.
Hann þakkaði Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, fyrir fundinn og fyrir framgöngu sína í fyrirhugaðri stækkun BRICS.
Bandalagið samanstendur nú af Brasilíu, Rússlandi, Indlandi, Kína og Suður-Afríku en ríkin hafa ákveðið að bjóða sex ríkjum til viðbótar að vera með: Argentínu, Egyptalandi, Íran, Eþíópíu, Sádi Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.