Forsaga málsins er sú að Arnar var í leikbanni þegar leikur Vals og Víkings fór fram fyrir skömmu. Arnar var hins vegar í stúkunni að Hlíðarenda og í stöðugu símasambandi við varamannabekk Víkinga á meðan á leiknum stóð.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ bað aga- og úrskurðanefnd sambandsins að skoða málið en nefndin taldi Arnar ekki hafa gerst brotlegan.
„Ég var bara í stöðugum samskiptum þarna við bekkinn. Það er svo fínt útsýni þarna úr stúkunni og ég er að spá í að gera þetta að vana,“ sagði Arnar meðal annars í samtali við Stöð 2 Sport að leik loknum. Víkingur vann 4-0 sigur gegn Val í leiknum.
Í kærunni sem vefmiðillinn 433.is hefur undir höndum kemur fram að það séu þessi orð Arnar sem kæran byggir á að mestu. 433.is greindi fyrst frá kæru Valsmanna á vef sínum.
„Leikbann þjálfara, sem byggir á 12. gre., hefur það í för með sér að þjálfari skal, mæti hann á leikstað, vera meðal áhorfenda frá og með einni klukkustund fyrir leik og þar til dómari flautar til leiksloka. Á þessu tímabili má þjálfari ekki vera á leikvellinum, boðvangi, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt,“ segir í kærunni.
Kröfur Valsmanna eru að Val verði dæmdur 3-0 sigur í leiknum og Víkingi gert að greiða sekt. Til vara að leikurinn verði dæmdur ógildur og liðunum gert að endurtaka hann. Til þrautavara að kæranda verði gert að greiða sekt.