Erlent

Skipar mála­liðum Wagners að sverja hollustu­eið

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vladímír Pútín hefur skipað öllum starfsmönnum Wagner-hópsins sem og öðrum málaliðum að sverja hollustueið.
Vladímír Pútín hefur skipað öllum starfsmönnum Wagner-hópsins sem og öðrum málaliðum að sverja hollustueið. AP/Gavriil Grigorov

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hefur undirritað tilskipun sem kveður á um að allir starfsmenn Wagner-málaliðahópsins, auk annarra rússneskra málaliðahópa, skuli sverja Rússlandi hollustueið.

Pútín skrifaði undir tilskipunina í gær, tveimur dögum eftir að Jevgení Prígósjín, leiðtogi Wagner-hópsins, lést í flugslysi. 

Tilskipunin nær til allra þeirra sem taka þátt í hernaðaraðgerðum í Úkraínu, þeirra sem aðstoða rússneska herinn og þeirra sem vinna við varnarmál segir í frétt BBC.

Pútín vill herða takið á Wagner

Sérfræðingar telja að tilskipun Pútín sé hluti af áætlunum hans um að endurheimta vald sitt eftir uppreisn Wagner-hópsins í júní.

„Pútín vill hafa þétt tak á Wagner til að tryggja það að hann lendi ekki í annarri krísu í framtíðinni,“ sagði Natia Seskuria, sérfræðingur hjá bresku hugveitunni RUSI, við BBC.

Seskuria telur að þó tilskipunin muni hafa skammtímaáhrif þá muni dyggir stuðningsmenn Prígósjín ekki sverja eiðinn. Tilskipunin gæti því skapað vandræði fyrir Pútín síðar meir.

Með því að sverja eiðinn lofa eiðsvarar því að fylgja öllum skipunum yfirmanna. Það sé gert til að byggja upp andlegan og siðferðilegan grunn varnar Rússa.

Nokkrum vikum áður en Wagner gerði uppreisn í júní gaf rússneska varnarmálaráðuneytið málaliðahópum frest til 1. júlí til að skrifa undir samninga við herinn. Prígósjín neitaði þá að skrifa undir þar sem hann vildi ekki að Wagner heyrði undir ráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×