Það kom mörgum á óvart þegar Roberto Mancini tilkynnti á dögunum að hann væri hættur þjálfun ítalska karlalandsliðsins í knattspyrnu. EM í Þýskalandi er á næsta ári þar sem Ítalir hafa titil að verja en liðinu mistókst að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Katar sem fram fór í lok síðasta árs.
Í dag var Mancini kynntur til leiks sem nýr þjálfari karlalandsliðs Sádi Arabíu.
„Ég skrifaði söguna í Evrópu, nú er tími kominn að gera það með Sádi Arabíu,“ sagði Mancini í kynningarmyndbandinu.
I am excited to announce that I am joining the Saudi Arabia Football Federation as Head Coach of the National Team. I am delighted and honored to have been selected for such prestigious role, as a sign of appreciation and recognition for all the work done during these years. pic.twitter.com/lW2pF0rVar
— Roberto Mancini (@robymancio) August 27, 2023
Ítalski miðillinn Gazetta dello Sport segir að samningur Mancini sé til næstu fjögurra ára og sé 100 milljóna evra virði sem gerir rúmlega 14 milljarða íslenskra króna. Það gerir hann að launahæsta knattspyrnustjóra í heimi.
Mancini verður kynntur í Riyadh á morgun og fyrsti landsleikur Sáda undir hans stjórn verður þann 8. september þegar liðið mætir Costa Rica á St. James Park í Newcastle.
Luciano Spalletti hefur tekið við ítalska landsliðinu af Mancini.