Innlent

Sofandi inn­brots­þjófur og sjálfs­fróun á al­manna­færi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum um helgina.
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum um helgina.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum um helgina en hún var meðal annars kölluð til vegna manns sem var sagður sofa ölvunarsvefni við fyrirtæki í Reykjavík.

Maðurinn neitaði að gefa upp nafn eða kennitölu en var með ætlað þýfi, vopn og fíkniefni á sér. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þá barst lögreglu tilkynning um mann að stunda sjálfsfróun við húsnæði í Reykjavík. Lögregla fór á vettvang og ræddi við þann sem tilkynnti og þann sem var að gera vel við sig en sá virtist undir áhrifum. 

Málið er í rannsókn.

Tvær tilkynningar bárust um hnupl í matvöruverslunum en í öðru tilvikinu reyndist fingralangur ósamvinnuþýður og var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Lögregla sinnti einnig tilkynningum vegna manns sem var sagður vera að reyna að komast inn í bifreiðar og vegna manns á bráðamóttöku Landspítala sem var sagður æstur. Hann róaðist þó og var lögregla kölluð til baka.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni vegna gruns um akstur undir áhrifum. Þá var tilkynnt um mögulegan eld í vélbúnaði í fyrirtæki í Reykjavík. Lögregla og slökkvilið mættu á staðinn en það gekk greiðlega að slökkva eldinn og handslökkvitæki dugði til. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×