Íslenski boltinn

Geta gert frábært tímabil fullkomið í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingar eru komnir með annan fótinn upp í Bestu deild kvenna.
Víkingar eru komnir með annan fótinn upp í Bestu deild kvenna. vísir/hulda margrét

Kvennalið Víkings í fótbolta getur gert gott tímabil enn betra þegar það tekur á móti Fylki í Lengjudeildinni í kvöld. Með sigri tryggja Víkingar sér bæði sæti í Bestu deildinni að ári og sigur í Lengjudeildinni.

Víkingar hafa vakið athygli fyrir vaska framgöngu í sumar, ekki síst í Mjólkurbikarnum þar sem liðið fór alla leið og vann keppnina í fyrsta sinn. Víkingur varð jafnframt fyrsta liðið úr næstefstu deild sem verður bikarmeistari.

Víkingar hafa einnig verið í góðum gír í Lengjudeildinni og verið á toppi hennar í nær allt sumar. Víkingur er núna með 36 stig á toppi Lengjudeildarinnar, fjórum stigum á undan Fylki og HK sem eru í 2. og 3. sæti.

Víkingur mætir einmitt Fylki í Víkinni í kvöld og með sigri tryggja þær rauðu og svörtu sér sæti í Bestu deildinni að ári. Jafnframt eru Víkingar öruggir með að vinna deildina ef þeir bera sigurorð af Árbæingum í kvöld.

Víkingur hefur leikið í efstu deild kvenna en þá í samstarfi við HK. Félögin slitu samstarfi sínu 2019.

Síðan þá hefur Víkingur tekið skref upp á við á hverju tímabili. Liðið endaði í 7. sæti Lengjudeildarinnar 2020, 4. sæti 2021 og 3. sæti í fyrra. Og nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að Víkingur leiki í Bestu deildinni 2024.

Leikur Víkings og Fylkis á Víkingsvellinum hefst klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×