„Ég er voða lítið í „ef“ spurningum og þetta er nú bara mál í ferli og eigum við ekki bara að sjá hvernig það fer?“ segir Sigurður Ingi í samtali við Vísi.
Eins og fram hefur komið hefur Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, sagt að hann telji einsýnt að vantrauststillaga verði lögð fram gegn Svandísi á haustþingi komist Umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að hún hafi farið gegn lögum þegar hún frestaði hvalveiðum.
Þá hefur Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, tekið undir með Elliða í samtali við Ríkisútvarpið. Hann útilokar ekki að flokkurinn myndi styðja vantrauststillögu á hendur ráðherranum reynist hvalveiðibannið ólöglegt en segir afstöðuna geta ráðist af því hvort bannið verði framlengt.
Ákvörðun mun liggja fyrir þann 1. september og hefur Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagt að hann telji einsýnt að Svandís muni leyfa hvalveiðar að nýju, enda hafi hún brotið lög með því að banna þær.
Áður hefur Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og viðskipta-og menningarmálaráðherra sagt að Framsókn leggi áherslu á að leysa ágreiningsmál í ríkisstjórninni með góðri samvinnu. Sigurður Ingi gefur ekkert upp um mögulegan stuðning Framsóknar við samráðherra sinn nú.
Þannig að ef að hvalveiðibann verður framlengt, mynduð þið styðja Svandísi?
„Eins og ég segi, ég er voða lítið í „ef“ tillögum, að svara þeim, ef þetta eða hitt gerist. Þannig að við skulum nú bara sjá hvernig tíminn líður og hvernig hlutirnir æxlast.“