„Ætlar þetta fólk að segja hvernig við Íslendingar eigum að nýta okkar auðlindir? Hvaða della er þetta?“ spyr Vilhjálmur í færslu á Facebook. „Væri ekki nær fyrir þessar Hollywood-stjörnur að byrja á að taka til í sínum garði áður en þau fara að hóta okkur Íslendingum og segja okkur hvernig við eigum að nýta okkar sjávarauðlind.“
Í gær var greint frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að nokkrar erlendar stórstjörnur ætli sér að sniðganga landið verði hvalveiðum haldið áfram. Þar á meðal voru leikarar á borð við Leonardo DiCaprio, Jason Momoa, Hillary Swank og síðan hafa leikstjórarnir Jane Campion, James Cameron og Peter Jackson bæst í hópinn.
Nöfn þessara einstaklinga má finna á undirskriftalista sem safnað er í Hollywood gegn hvalveiðum Íslendinga.
Vilhjálmur vill að þessar stjörnur líti í eigin barm og leggur sjálfur til þess að þeir leggi niður störf uns byssulöggjöf Bandaríkjamanna verði breytt.
„Takið eftir að skotárásir eru helsta dánarorsök barna í Bandaríkjunum en frá árinu 2020 til 2022 hafa 4.368 börn látist af völdum skotvopna í Bandaríkjunum,“ útskýrir Vilhjálmur sem sakar Hollywood-liða um hræsni.
„Og já hræsnin í þessu liði er svo yfirgengileg að það hefur mestar áhyggjur af veiðum á 150 langreyðum við Íslandsstrendur. Ja hérna og þvílíkt rugl sem þetta er! Svo til að kóróna hræsnina í þessum Hollywood-stjörnum þá eru Bandaríkjamenn sjálfir að veiða hvali,“ bætir hann við.