Innlent

Stjórnar­flokkarnir undir­búa hrókeringar í fasta­nefndum þingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni, Bjarkey og Bryndís hafa farið með formennsku í nefndum þingsins það sem af er kjörtímabili. Nú verður stokkað upp.
Bjarni, Bjarkey og Bryndís hafa farið með formennsku í nefndum þingsins það sem af er kjörtímabili. Nú verður stokkað upp. Vísir/Vilhelm

Hrist verður upp í fastanefndum Alþingis fljótlega eftir að þing kemur saman þann 12. september þar sem nefndarformennska í einstaka nefndum mun flytjast á milli stjórnarflokka. Þannig mun formennska í fjárlaganefnd samkvæmt heimildum fréttastofu færast til Framsóknarmanna og Sjálfstæðismenn taka við formennsku í utanríkismálanefnd.

Við endurnýjun stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar árið 2021 var ákveðið að á miðju kjörtímabili yrðu gerðar breytingar á nefndarsetu og hefur undirbúningur þess staðið yfir á stjórnarheimilinu síðustu vikurnar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun formennska í fjárlaganefnd færast til Framsóknarflokksins en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur farið með formennsku í nefndinni það sem af er kjörtímabili.

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, mun láta af nefndarformennsku í utanríkismálanefnd, en formennska í nefndinni mun færast til þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þingmenn Vinstri grænna munu á móti taka við formennsku í velferðarnefnd, þar sem Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar, hefur farið með formennsku, og sömuleiðis í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokki, hefur farið með formennsku.

Formennska í allsherjar- og menntamálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd verður áfram á hendi Sjálfstæðismanna, en Bryndís Haraldsdóttir hefur farið með formennsku í þeirri fyrrnefndu og Guðrún Hafsteinsdóttir í þeirri síðarnefndu. Guðrún lét af formennsku í nefndinni þegar hún tók við embætti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni í sumar.

Formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verður áfram á könnu þingmanns úr stjórnarandstöðunni, en Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur farið þar með formennsku.

Alþingi verður sett þriðjudaginn 12. september og fer stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fram miðvikudagskvöldið 13. september. Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 fer fram fimmtudaginn 14. september og heldur áfram föstudaginn 15. september.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×