Erlent

Daníel Gunnars­son fundinn sekur um morð og lim­lestingu á líki

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Daníel Gunnarsson á yfir höfði sér minnst 29 ár í fangelsi.
Daníel Gunnarsson á yfir höfði sér minnst 29 ár í fangelsi. Skrifstofa saksóknaraembættisins í Kern sýslu.

Kviðdómur í Kaliforníu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingurinn Daníel Gunnarsson sé sekur um morð af fyrstu gráðu og limlestingu á líki. Úrskurður var kveðinn upp í héraðsdómstólnum í Kern í Bakersfield síðastliðinn miðvikudag.

Daníel Gunnarsson er 23 ára gamall. Faðir hans er íslenskur en móðir hans er af tékkneskum uppruna. Mæðginin fluttu til Ridgecrest í Kaliforníu fyrir nokkrum árum og gekk Daníel í gagnfræðiskóla í bænum.

Réttarhöld í máli Daníels hófust í Kaliforníu í seinasta mánuði. Hann var ákærður fyrir að hafa orðið fyrrum bekkjarsystur sinni, hinni 21 árs gömlu Katie Pham, að bana á hrottalegan hátt. Vikurnar fyrir morðið höfðu þau átt í stuttu ástarsambandi. Daníel neitaði sök í málinu.

Í frétt sem birtist á vef Aol í gærdag kemur fram að níu konur og þrír karlmenn hafi verið í kviðdómnum. Þrjár af konunum sáust gráta og þurrka burtu tár eftir að Daníel var fundinn sekur.

Við réttarhöldin varpaði verjandi Daníels meðal annars fram þeirri tilgátu að einhver annar hefði framið morðið, og að Daníel hefði síðan fundið líkið.

Í fréttatilkynningu saksóknara kemur fram að glæpur Daníels hafi verið „viðbjóðslegur.“

„Það þarf að refsa fyrir óútskýranleg ofbeldisverk með viðeigandi hætti, þar með talið lífstíðarfangelsi, til að tryggja réttlæti og stuðla að öryggi almennings.“

Dómur yfir Daníel verður kveðinn upp þann 25.október næstkomandi en hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×