Eiríkur S. Jóhannsson lét af störfum sem stjórnarformaður, en hann hefur setið í stjórn fyrirtækisins samfellt frá árinu 2001 og þar af sem stjórnarformaður frá 2005.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja, en hún byggir á aðalfundi félagsins sem fór fram í síðustu viku. Greint er frá því að rekstrarhagnaður Samherja hafi numið 9,9 milljörðum króna á árinu 2022 og hafi því aukist um rúmlega 800 milljónir króna milli ára.
Hagnaður af rekstri samstæðu Samherja, þegar tekið hefur verið tillit til afkomu hlutdeildarfélaga og fjármagnsliða, nam 14,3 milljörðum króna eftir skatta en var 17,8 milljarðar króna á árinu 2021.
Á aðalfundinum var ákveðið að greiða skyldi út arð til hluthafa félagsins sem næmi 3,7 prósent hagnaðar ársins. Jafnvirði þess er 558 milljóna króna. Tekið er fram að það sé í fyrsta skipti í fjögur ár sem greiddur er arður til hluthafa.
Eignir Samherja í árslok námu 107,7 milljörðum króna og eigið fé var 79,8 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var 74 prósent.
Ný stjórn var jafnframt kjörin, en líkt og áður segir er Baldvin Þorsteinsson orðinn stjórnarformaður félagsins.
„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og er stoltur að taka við sem formaður stjórnar Samherja hf. Ég byrjaði fyrst að vinna hjá félaginu ungur að árum og hef unnið margvísleg ólík störf hjá því gegnum árin. Ég hlakka til að starfa með föður mínum og öllu því frábæra starfsfólki sem er hjá Samherja hf. að áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins,“ er haft eftir Baldvini.
Eiríkur S. Jóhannsson lætur af hlutverkinu, en hann mun einbeita sér að verkefnum Kaldbaks ehf. þar sem hann gegnir stöðu framkvæmdastjóra.