New York Times hefur eftir heimildum innan bandaríska hersins að Kim, sem yfirgefur sjaldan höfuðborgina Pyongyang, muni líklega ferðast með brynvarðri lest.
Báðir leiðtogarnir munu sækja Eastern Economic Forum, sem er á dagskrá frá 10. til 13. september í Far Eastern Federal University í Vladivostok. Þá mun Kim heimsækja höfnina þar sem Kyrrahafsfloti Rússa hefur bækistöðvar.
Pútín er sagður munu fara þess á leit við Kim að Norður-Kórea sjái Rússum fyrir skotfærum, á meðan Kim vonast til þess að Rússar muni greiða fyrir innflæði af erlendum gjaldeyri. Hann er talinn munu verða nýttur til að styðja áframhaldandi þróun langdrægra eldflauga sem geta borið kjarnorkuvopn.
Sérfræðingar segja aukið samstarf Rússa og Norður-Kóreu nokkuð áhyggjuefni, þar sem ríkið, sem hingað til hefur verið einangrað og meðal annars beitt viðskiptaþvingunum af hálfu Rússa sem aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna, virðist nú vera orðið partur af fylkingu sem Rússar freista þess að mynda gegn Vesturlöndum.