Erlent

Segja Kúb­verja selda man­sali og látna berjast í Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Havana, höfuðborg Kúbu.
Frá Havana, höfuðborg Kúbu. Vísir/EPA

Kommúnistastjórnin á Kúbu segist hafa afhjúpað mansalshring sem hafi neytt kúbverska borgara til þess að berjast með Rússum í innrás þeirra í Úkraínu. Hringurinn hafi starfað bæði á Kúbu og í Rússlandi.

Utanríkisráðuneyti Kúbu sagði í yfirlýsingu í gær að mansalshringurinn hefði fengið kúbverska borgara í Rússlandi og jafnvel suma á Kúbu í innrásarliðið í Úkraínu. Unnið væri að því að uppræta hringinn og byrjað væri að sækja fólk til saka fyrir að þvinga Kúbverja til þess að berjast. Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um málið, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Rússneskt dagblað í borginni Rjazan sagði frá því í maí að nokkrir Kúbverjar hefðu skrifað undir samning við rússneska herinn og verið sendir til Úkraínu gegn því að fá rússneskan ríkisborgararétt. Reuters segir ekki ljóst hvort að tilkynning kúbverskra stjórnvalda nú tengist þeim fréttum.

Stjórnvöld í Kreml tilkynntu að þau ætluðu að fjölga í hernum um tæpan þriðjung. Rússneski herinn hefur orðið fyrir töluverðri blóðtöku í Úkraínu en hefur ekki staðfest hversu umfangsmikið það er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×