Það var á þriðja tímanum í dag sem Anahita Sahar Babaei og Elissa Bijou komu niður úr tunnunum og voru færðar á brott í lögreglubíl. Þá höfðu mótmælaaðgerðir þeirra staðið yfir í einn og hálfan sólarhring.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Elísabetu Ingu Sigurðardóttur, fréttamann okkar á vettvangi, að Hvalur hf. hafi kært konurnar fyrir húsbrot. Þær hafi verið fluttar á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem heilbrigðisstarfsfólk hafi skoðað ástand þeirra. Anahita hafði verið án vatns og matar í vel á annan sólarhring en bakpoki hennar með vistum var fjarlægður af lögreglu.
Þeim stóð til boða að koma niður úr tunnunum og fá mat og drykk. Lögregla hafnaði hins vegar að færa aðgerðarsinnunum mat.
„Ef þær hefðu verið í mjög slæmu ástandi þá hefðum við farið með þær á sjúkrahús,“ segir Ásgeir. Hann segir að bakpokinn hafi verið tekinn af Anahitu til þess að stytta mótmælin, auka líkurnar á að þeim lyki fyrr en ella.
Sú aðgerð hefur verið gagnrýnd, meðal annars af framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands í hádegisfréttum Bylgjunnar.
„Ef þú kæmir að einhverjum í stofunni þinni með bakpoka og nesti, þá myndir þú ekki telja það mannréttindi þess einstaklings að fá að vera með töskuna og nesti,“ segir Ásgeir. Það hafi ekki verið mistök að taka töskuna af þeim.
Hann tekur fram að konurnar hafi verið samstarfsfúsar allan tímann og að samskipti þeirra og lögreglu hafi verið mjög kurteisisleg.
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður er efins um þessa aðgerð lögreglu. Hann ræddi hana í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.