Erlent

Hyggjast selja að­­göngu­miða að Fen­eyjum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
3,2 milljónir ferðamanna gistu í miðborg Feneyja í fyrra.
3,2 milljónir ferðamanna gistu í miðborg Feneyja í fyrra. EPA

Frá og með næsta vori verður ferðamönnum sem ætla sér að eyða deginum í Feneyjum gert að borga fimm evrur fyrir aðgangsmiða að borginni. Gjaldið er tilraun borgaryfirvalda til þess að sporna gegn gríðarmikilli ferðamennsku í borginni yfir vor- og sumartímann.

Borgarstjórn Feneyja greindi frá þessu í dag. Nokkrar vikur eru síðan Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna lagði til að borginni yrði bætt á lista yfir minjasvæði sem eru í hættu, bæði vegna áhrifa loftslagsbreytinga og mikillar ferðamennsku í borginni. 

„Það er mikilvægt að við höfum stjórn á flæði ferðamanna á vissum tíma árs, en það þýðir ekki að borginni verði lokað. Feneyjar verða alltaf opnar öllum,“ sagði Luigi Brugnaro, borgarstjóri Feneyja um málið.

Þá kemur fram í yfirlýsingu frá borgaryfirvöldum að íbúar, vinnuferðalangar, háskólanemar og börn undir fjórtán ára aldri komi ekki til með að þurfa að greiða aðgangsgjaldið, sem nemur 718 íslenskum krónum. Auk þess þurfi ferðamenn sem gista í borginni ekki að borga. Gjaldið sé hugsað fyrir ferðamenn sem fari í dagsferðir til borgarinnar.

Áformin hafa enn ekki verið samþykkt af allri borgarstjórninni, sem fundar næst þann 12. september. Þá eru atriði á borð við fjölda fáanlegra miða hvern dag enn óljós. Borgarstjóri Feneyja hefur þó samþykkt að prufukeyra gjaldsetninguna í þrjátíu daga, líklegast á  opinberum frídögum og um helgar yfir vor- og sumartímann á næsta ári.

Síðustu ár hafa borgaryfirvöld í Feneyjum leitast við að draga úr miklum fjölda ferðamanna sem heimsækja borgina ár hvert. Áform um gjaldtöku sem kynnt voru árið 2019 frestuðust vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×