Ásmundur Einar Daðason menntamálaráðherra lagði leið sína til Akureyrar í gær og kynnti þar tillögur svokallaðs stýrihóps um eflingu framhaldsskólanna. Hópurinn leggur til að framhaldsskólarnir tveir í bænum, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri, verði sameinaðir. Krista Sól Guðjónsdóttir forseti Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri, segir nemendur slegna.
„Viðbrögð okkar voru auðvitað bara mikið sjokk, við fengum lítinn sem engan fyrirvara fyrir fundinum. Þetta var keyrt í gegn með einhverri leynd,“ segir Krista.
„Það sem við heyrðum frá nemendum var það að þau væru virkilega ósátt við þetta. Þar sem ráðherra, eftir að smá pressa var sett á hann, sagði að það væri í raun ekki verið að skoða þetta. Það væri bara búið að ákveða þetta.“
96 prósent mótfallin sameiningu
Krista segir það ótækt, fari svo að aðeins einn framhaldsskóli standi ungmennum Akureyrar til boða í framtíðinni.
„Auk þess sem MA er auðvitað skóli sem er með mikið af rótgrónum hefðum siðum og menningu, sem við erum mjög hrædd um að muni glatast ef skólarnir sameinast.“
Í óformlegri könnun stjórnarinnar, þar sem 294 af 570 nemendum MA hafa greitt atkvæði, eru 96 prósent þeirra mótfallin sameiningu. Krista og félagar hafa enn fremur boðað til mótmæla klukkan korter í tvö í dag á Ráðhústorgi Akureyrar.
„Við erum auðvitað að taka á okkur skróp í tíma fyrir þetta, þannig að það kemur í ljós hversu góð mætingin verður en við munum í rauninni hringja á sal klukkan 13:30 og þaðan munum við marsera saman niður á Ráðhústorg.“
Stjórn nemendafélags VMA virðist þó ekki jafnafgerandi í afstöðu sinni til sameiningar. Upplifun Kristu eftir fundinn í gær er að þeim sé nokkuð sama um málið.