Mansalshringurinn var sagður starfa bæði á Kúbu og í Rússlandi þegar kúbversk yfirvöld greindu fyrst frá því að þau hefðu afhjúpað hann fyrr í vikunni. Fulltrúi innanríkisráðuneytisins greindi frá handtökunum í kúbverska sjónvarpinu í gærkvöldi. Skipuleggjendur starfseminnar væru á meðal þeirra handteknu, að því er kemur fram í frétt Reuters.
Forsprakkar hringsins eru sagðir hafa reitt sig á tvo menn á Kúbu til þess að lokka unga menn til þess að taka þátt í innrásinni í Úkraínu.
José Luis Reyes, saksóknari á Kúbu, segir að þeir handteknu gætu átt yfir höfði sér þrjátíu ára fangelsi, lífstíðardóm eða jafnvel dauðarefsingu allt eftir eðli og alvarleika brota þeirra. Þau geti verið mansal, málaliðastörf eða árás á erlent ríki.
Samband kúbverskra og rússneskra stjórnvalda hefur verið náið um áratuga skeið. Fjöldi efnahagslegra flóttamanna fer frá Kúbu til Rússlands í leit að betra lífi. Vladímír Pútín Rússlandsforseti skipaði fyrir um að erlendis ríkisborgarar sem skráðu sig til herþjónustu gætu fengið flýtimeðferð að ríkisborgararétti.
Stjórnvöld á Kúbu segjast ekki þátttakendur í innrásinni í Úkraínu og að þau vilji ekki að borgarar sínir berjist þar sem málaliðar.