Atlantshafsbandalagið (NATO) reisti mikla olíubirgðastöð í Hvalfirði í Kalda stríðinu svokallaða og var um að ræða nokkurs konar framhaldsframkvæmd á olíubirgðastöðinni sem Bandaríkjamenn gerðu í firðinum á árum seinni heimsstyrjaldar.
Í upprifjun Skessuhorns árið 2014 er þess minnst að um hafi verið að ræða stærstu framkvæmdir þess tíma á Íslandi. Smíða átti mikla bryggju sem dæla mátti um olíu í og úr skipum sem legðust þar að. Í landi voru settir upp fjórir nýir olíugeymar sem rúmuðu hver um sig 13 þúsund tonn. Einnig voru settar upp dælustöðvar og reist rafstöðvarhús.

Jónas Guðmundsson frá Bjarteyjarsandi var á meðal þeirra sem unnu við að reisa bryggjuna og segir það hafa verið mikið ævintýri fyrir ungan mann.
„Vélarnar voru stórar og miklar. Miklu stærri en maður hafði áður séð. Ég hafði þó verið í jarðvinnu og kynnst bæði skurðgröfum og jarðýtum.“
Verkamennirnir bjuggu flestir í vinnubúðum sem settar voru upp á staðnum.
„Mannskapurinn var hópur af Bandaríkjamönnum og svo Íslendingar. Uppistaðan í íslenska mannskapnum til að byrja með voru Keflvíkingar sem unnu hjá Íslenskum aðalverktökum suður frá. Síðan bættust menn ört í hópinn þegar framkvæmdirnar komust á fullt skrið.

Það voru menn af Akranesi og margir úr sveitunum í Hvalfirði. Það bjuggu allir á staðnum en menn fóru heim um helgar. Þetta voru góðar tekjur og fín vinna. Ég starfaði við þetta frá því í janúar 1966 þar til í desember 1968. Þetta urðu þannig tvö ár og bryggjan var fullsmíðuð með lögnum og öllu saman þegar ég kvaddi.“
Olíubirgðastöð NATO er í dag leikmynd liðins tíma en bryggjan stendur enn. Fyrir nokkrum árum áskotnaðist Magnúsi Þór Hafsteinssyni meðfylgjandi myndir frá Markúsi Karli Valssyni heitnum, en Markús var áhugaljósmyndari á Suðurnesjum og jafnframt starfsmaður Íslenskra aðalverktaka. Veitti hann Vísi góðfúslegt leyfi til að birta myndirnar.








