Fótbolti

Bauluðu á liðið, klöppuðu fyrir and­stæðingnum og heimtuðu endur­greiðslu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kínverjar eru allt annað en sáttir við landsliðið.
Kínverjar eru allt annað en sáttir við landsliðið. Fred Lee/Getty Images

Kínverska karlalandsliðið í knattspyrnu mátti þola 1-0 tap á heimavelli er liðið tók á móti Sýrlandi í vináttulandsleik í gær og stuðningsmenn liðsins virðast vera búnir að fá sig fullsadda á genginu.

Kínverska liðið hefur aðeins unnið fjóra leiki á seinustu tveimur árum og hafa sigrarnir fjórir allir komið gegn þjóðum sem sitja neðar en í 90. sæti á heimslista FIFA.

Tapið gegn Sýrlendingum, sem sitja í 94. sæti heimslistans, virðist svo hafa verið kornið sem fyllti mælinn hjá stuðningsmönnum liðsins. Aðeins fjórir mánuðir eru þangað til Asíumótið hefst og tveir mánuðir þar til asíska undankeppnin fyrir HM hefst.

Aðeins 12.367 áhorfendur mættu á leik Kína og Sýrlands sem fram fór í Chengdu, en völlurinn tekur um 60.000 manns í sæti. Kínverskir miðlar greindu frá því að stuðningsmenn kínverska liðsins hafi baulað á leikmenn liðsins og að söngvar um endurgreiðslu hafi ómað um völlinn.

Þá birtust einnig myndbönd á samfélagsmiðlum af kínverskum stuðninsmönnum klappa fyrir sýrlenska liðinu, en baula á sitt eigið lið í leikslok.

Þrátt fyrir að vera næst fjölmennasta land heims situr Kína í 80. sæti heimslista FIFA. Þjóðin hefur aðeins einu sinni unnið sér inn sæti á HM, en það var árið 2002. Xi Jinping, forseti landsins, segir þó að Kína eigi að vera búið að halda og vinna heimsmeistaramót fyrir árið 2050.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×