Þetta kemur fram í skriflegum svörum frá Ingibjörgu Isaksen, þingflokksformanni Framsóknar og oddvita í Norðausturkjördæmi. Eins og fram hefur komið hafa 25 fyrirtæki á Norðurlandi gagnrýnt áformin sem fyrst voru kynnt í lok apríl, auk kennarafélaga beggja skóla og nemenda við Menntaskólann á Akureyri.
„Ég hef verið hörð á því frá upphafi að markmið með þeirri vinnu sem lagt var upp með yrði að vera til þess að efla nám og svæðið í heild,“ segir Ingibjörg.
„Í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á skýrslu nefndarinnar tel ég einsýnt að staldra við, hægja á okkur og breyta uppleggi vinnunnar. Ég hef skorað á menntamálaráðaherra að endurskoða vinnuna og markmið með það að leiðarljósi að efla nám framhaldskólanna í breiðu samráði.“
Hún segir að það verði að gefa svigrúm til þess að umræðan geti átt sér stað á málefnalegum grundvelli, með það að endamarkmiði að framhaldsskólasamfélagið á Akureyri verði það öflugasta á landinu.
„Ein af forsendum þess að hægt sé að slaka á vinnunni eða breyta áherslum er sú að fjármagn inn í málaflokkinn aukist. Ég treysti því að allir þingmenn hér í kjördæminu styðji tillögur um aukið fjármagn inn í málaflokkinn svo hægt sé að hægja á þessari vegferð. Nú er mikilvægt að gefa starfsmönnum, nemendum og heimafólki á svæðinu svigrúm og tækifæri til að móta sameiginlega framtíðarsýn um þróun framhaldsskólastarfs á svæðinu í takt við samfélagsbreytingar og áskoranir.“