Innlent

Katrín segir krefjandi að vera í „ó­­­venju­­legri ríkis­­stjórn“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Katrín sagði mikilvægt að finna lausnir í sameiningu og málamiðla í stefnuræðu sinni þetta árið.
Katrín sagði mikilvægt að finna lausnir í sameiningu og málamiðla í stefnuræðu sinni þetta árið. Mynd/Steinþór Rafn Matthíasson

Forsætisráðherra flutti stefnuræða sína í kvöld á þingi. Hún fór yfir stóru málin í vetur og þau verkefni sem framundan eru. Hún sagði ríkisstjórnina óvenjulega en að þeim gengi vel að vinna saman. Þau myndu halda því áfram. 

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, sagði í stefnu­ræðu sinni á Al­þingi í kvöld það alltaf vera krefjandi verk­efni að vera í ríkis­stjórn „og ekki síður ó­venju­legri ríkis­stjórn“.

„Ó­venju­legri vegna þess að það er sjald­gæft að ó­líkir flokkar taki sig saman um að byggja brýr á milli gagn­stæðra póla með vel­sæld fólksins í landinu að leiðar­ljósi,“ sagði Katrín og að þetta ætti ekki að vera framandi því okkar dag­lega líf snúist að miklu leyti um þetta. Að hlusta á ólík sjónar­mið, virða þau og komast að sam­eigin­legri niður­stöðu.

„Allt frá því hvað á að vera í kvöld­matinn, hver á skjá­tíminn að vera, hvaða verk­efnum á að for­gangs­raða í hús­fé­laginu yfir í það hvernig við aukum vel­sæld og náum árangri í lofts­lags­málum. Öll slík verk­efni byggja á því að skil­greina mark­mið sem eru sam­fé­laginu til hags­bóta og finna svo leiðir að þeim – og það getur vissulega kallað á mála­miðlanir um leiðina og hversu hratt mark­miðum verður náð,“ sagði Katrín.



Hún sagði þannig ríkis­stjórnina hafa tekist á við mörg mál með þessum hætti, með góðum árangri, og að hennar mati sé það besta pólitíkin að vinna saman að sátt. Það geti falið í sér mála­miðlanir.

„Ég er ekki að­dáandi þeirra stjórn­mála­manna sem telja sér til tekna að semja aldrei, líta á hverja sátt sem upp­gjöf og telja deilur sér til tekna fremur en sátt og sam­vinnu. Það er nefni­lega fleira sem sam­einar okkur hér í þessu landi en sundrar,“ sagði Katrín og að með því væri ekki sagt að deilu­mál eigi að víkja til hliðar og logn­mollan ein að ríkja.

„Þar með er ekki sagt að pólitísk deilu­mál eigi að víkja til hliðar og logn­mollan ein að ríkja. En það er sitt hvað pólitík sem annars vegar byggir á skautun, virðingar­leysi fyrir pólitískum and­stæðingum og popúl­isma og hins vegar þeirri pólitík sem tekst á við þá stað­reynd að fólkið í þessu landi hefur ó­líkar skoðanir og reynir að leiða fram skyn­sam­lega niður­stöðu mála sem megin þorri þjóðarinnar getur fellt sig við,“ sagði Katrín.

Hún fór um víðan völl í ræðu sinni en byrjaði hana á því að ræða efna­hags­mál og kjara­samninga sem verða ef­laust hita­mál þennan veturinn. Hún fór yfir að­gerðir ríkis­stjórnarinnar síðustu ár og þær sem eru á döfinni. Hún sagði skipta miklu máli að aðilar vinnu­markaðarins fái ráð­rúm til að ná saman um far­sæla kjara­samninga og að stjórn­völd muni greiða fyrir þeim eins og hægt er. Miklu máli skipti að á­ætlanir þeirra í hús­næðis­málum gangi eftir og þátt­taka sveitar­fé­laga í því verk­efni.

„Öruggt hús­næði er lykill að lífs­gæðum og því eitt for­gangs­mála ríkis­stjórnarinnar,“ sagði Katrín og færði sig svo í mál­efni barna­fjöl­skyldna.

Mikilvægt að draga úr fátækt

Hún sagði út­tekt á stöðu ung­barna­fjöl­skyldna standa yfir og að niður­stöðurnar verði nýttar til að bæta kjör þeirra. Þá sagði hún unnið að að­gerða­á­ætlun til að draga úr fá­tækt á Ís­landi.

„Í for­sætis­ráðu­neytinu vinnum við nú að að­gerða­á­ætlun til að draga úr fá­tækt í kjöl­far skýrslu sem ég lét vinna að beiðni Al­þingis. Þar kom fram að dregið hefur úr fá­tækt undan­farna tvo ára­tugi og staðan á Ís­landi er með því besta sem þekkist. Það er gott að okkur hefur miðað á­fram og það gefur okkur trú á verk­efnin. En meðal­töl og lang­tíma­þróun leysa ekki neyð þeirra sem enn­þá eiga vart til hnífs og skeiðar þegar líða tekur á mánuðinn,“ sagði Katrín og að verst standi ein­stæðir for­eldrar, ör­orku­líf­eyris­þegar og inn­flytj­endur verst.

Katrín sagði einnig von á upp­færðri að­gerða­á­ætlun í loft­lags­málum frá um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytinu um ára­mót þar sem „munu birtast endur­skoðaðar og nýjar að­gerðir til að ná metnaðar­fullum mark­miðum okkar í lofts­lags­málum.“

Arðurinn eigi að renna til þjóðarinnar

Hún sagði mikil­vægt að sam­hliða nýju frum­varpi um­hverfis­ráð­herra um vindorku verði það tryggt að arðurinn af auð­lindinni renni til þjóðarinnar.

Hvað varðar sjávar­út­veg sagði Katrín tvennt mark­verk í þeirri vinnu sem hefur farið fram um endur­skoðun fisk­veiði­stjórnunar­kerfisins og það sé annars vegar að megin­reglur um­hverfis­réttar, til dæmis hvað varðar vist­kerfa- og var­úðar­nálgun, verði inn­leiddar í fisk­veiði­stjórnunar­kerfið og hitt, að við­mið um heildar­afla­hlut­deild og tengda aðila verði ein­földuð og skýrð og gagn­sæi í eignar­haldi og rekstri sjávar­út­veg­fyrir­tækja aukið, meðal annars með skráningu við­skipta með afla­heimildir í opin­bera gagna­grunna.

Katrín tilkynnti um frumvarp um nýja Mannréttindastofnun á næsta þingári í stefnuræðu sinni. Mynd/Steinþór Rafn Matthíasson

Að því loknu fjallaði um nýjan Land­spítala, aukið fjár­magn til heilbrigðismála og um ís­lenska tungu og sér­staka ráð­herra­nefnd sem tók til starfa fyrir tæpu ári.

„Við höfum skyldum að gegna til að varð­veita ís­lenska tungu og gera öðrum kleift að njóta hennar, ekki bara gagn­vart okkur sjálfum heldur heiminum öllum sem yrði fá­tækari ef ein þjóð­tungan enn hyrfi af sviðinu,“ sagði Katrín á­kveðin í þing­sal í kvöld.

Skylda að tryggja mannréttindi

Að því loknu sneri Katrín sér að heiminum utan Ís­lands og þeirri neyð sem víða ríkir vegna á­taka og lofts­lags­vá­innar. Hún sagði á­tökin í heiminum oftar en ekki snúast um grund­vallar­mann­réttindi fólks sem „við héldum að við hefðum þegar barist fyrir“. 

Í því sam­hengi nefndi hún réttindi hin­segin fólks og sjálfs­á­kvörðunar­rétt kvenna. Hún sagði mikil­vægt að Ís­land héldi á­fram að berjast fyrir bættum réttindum.



Katrín lauk svo ræðu sinni á því að segja verk­efni ríkis­stjórnarinnar skýr. Það sé megin­mark­mið að ná niður verð­bólgu og vöxtum. Hún sagði þau á réttri leið en að það verði að tryggja að batinn skili sér í ís­lenskt sam­fé­lag, efna­hags­líf og hvert einasta heimili.

„Það er verk­efni okkar og frá því munum við ekki hvika.“

Um­ræður um stefnu­ræðu ráð­herra standa enn yfir á vef Al­þingis og munu gera það langt fram á kvöld. Hægt er að horfa í beinni út­sendingu á vef Vísis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×