Enski boltinn

Yfir­lýsing Manchester United: Sancho fær ekki að æfa með aðal­liðinu

Aron Guðmundsson skrifar
Jadon Sancho hefur átt erfitt uppdráttar á Old Trafford.
Jadon Sancho hefur átt erfitt uppdráttar á Old Trafford. Vísir/Getty

Jadon Sancho, sóknarmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United mun æfa einn, fjarri aðalliði félagsins vegna agavandamáls. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá enska úrvalsdeildarfélaginu.

Sancho gagnrýndi knattspyrnustjóra Manchester United, Hollendinginn Erik ten Hag, harðlega í færslu á samfélagsmiðlum eftir að hann var skilinn eftir utan leikmannahóps Manchester United fyrir leik liðsins gegn Arsenal fyrir landsleikjáhlé.  

Ten Hag spurður út í fjar­veru hans á blaða­manna­fundi eftir leik. Þar tjáði Hollendingurinn blaða­mönnum að Sancho hefði ekki staðið sig nógu vel á æfingum og hefði því ekki verið valinn í liðið.

Sancho svaraði því með umræddri færslu. Sagði fólki að trúa ekki öllu því sem það læsi. „Ég hef verið gerður að blóra­böggli í langan tíma og það er ekki sann­gjarnt!“ skrifaði Sancho meðal annars í færslunni sem hann hefur nú eytt. 

Yfirlýsing Manchester United um málið í dag er stutt og hnitmiðuð:

„Jadon Sancho mun æfa einn, fjarri aðalliði félagsins þar til lausn finnst á máli varðandi agabrot hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×