Í fréttum Stöðvar 2 var farið um vestfirskar heiðar en vegfarendur á leið um Vestfjarðaveg sjá núna hvern áfangann bætast við af öðrum. Nýja brúin yfir Þorskafjörð opnast fyrir jól og vegurinn um Teigsskóg í lok október en með því losna vegfarendur við Hjallaháls.

Lokaáfangarnir í Gufudalssveit, þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar, gætu klárast annaðhvort 2026 eða 2027, að sögn verkefnisstjóra Vegagerðarinnar, Sigurþórs Guðmundssonar.

Í endurbyggingu leiðarinnar um Dynjandisheiði, milli Flókalundar og Mjólkárvirkjunar, er þegar búið að leggja slitlag á þrettán kílómetra. Suðurverk er núna að vinna í næstu þrettán kílómetrunum á hæsta hluta heiðarinnar og á sá kafli að klárast um mitt næsta sumar.

En stóra spurningin er um framhaldið: Hvenær verður ráðist í næsta áfanga, kaflann úr Dynjandisvogi og að sýslumörkum á heiðinni?
Samkvæmt upplýsingum Sigurþórs, verkefnisstjóra Vegagerðarinnar, er núna stefnt að útboði þessa kafla á næsta ári og segir hann að verklok gætu náðst árið 2026.

Það er hins vegar meiri óvissa um legginn til Bíldudals en samkvæmt drögum að samgönguáætlun stefnir núna í að upphaf framkvæmda þar bíði til ársins 2029. Sigurþór telur álitlegt að fyrsti áfangi yrði frá Vestfjarðavegi niður af Dynjandisheiði.
Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður framkvæmdanna á Dynjandisheiði, er sjálfur Ísfirðingur. Við spurðum hann hvaða þýðingu vegarbæturnar þar hefðu fyrir Vestfirðinga.

„Alveg gríðarlega mikla. Ég vinn mikið á Patreksfirði og Tálknafirði og að geta komið hérna yfir alla daga ársins án þess að þurfa að þrífa bílinn alveg hátt og lágt þegar maður kemur. Það er alveg gríðarmikill munur fyrir hinn almenna Vestfirðing.
En svo náttúrlega fyrir atvinnulífið og fiskflutninga hérna á milli er þetta alveg gríðarlega mikilvægt,“ svarar Jóhann, sem er eftirlitsmaður Verkís fyrir Vegagerðina.

Vegarbætur á heiðinni sem og í Gufudalssveit eru einnig taldar leiða til þess að svokölluð suðurleið tekur við af Djúpvegi sem aðaltengingin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.
„Já, þetta verður mun styttri leið að fara. Og það er þá hægt að velja á milli verstu vetrarmánuðina hvora leiðina þú ferð, eftir því hvernig viðrar.“
Og ekki spillir útsýnið af Dynjandisheiði.

„Þetta er alveg magnað að horfa hérna niður í Geirþjófsfjörðinn. Þetta er alveg gríðarlega flott.“
-Þetta er kannski með flottari fjallvegum landsins?
„Já, það finnst mér,“ svarar Ísfirðingurinn Jóhann Birkir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: