Í ákæru á hendur Steinþóri, sem Vísir hefur undir höndum, segir að hann hafi svipt Tómas lífi með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi, með þeim afleiðingum að ytri mjaðmarslagæð fór í sundur og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða Tómasar.
Þess er krafist að Steinþór verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá er þess krafist fyrir hönd tveggja ólögráða barna Tómasar að Steinþór verði dæmdur til greiðslu sex milljóna króna miskabóta hvoru um sig og skaðabætur upp á 6,6 milljónir króna annars vegar og 4,4 milljóna hins vegar.
Fjögur upphaflega handtekin
Þann 3. október 2022 var lögregla kölluð á vettvang, í fjölbýlishúsi að Ólafsvegi, þar sem Tómas lést af sárum sínum. Fjórir voru handteknir og þrjú upphaflega úrskurðuð í gæsluvarðhald. Tveimur var sleppt, húsráðanda og eiginkonu Tómasar.
Fram kom í gæsluvarðhaldsúrskurði, yfir Steinþóri er um að bana manninum, að vafi væri uppi um hvort honum hafi verið ráðinn bani af vilja eða í sjálfsvörn.
Í úrskurðinum kom fram að líklegt væri að Tómas hefði veist að Steinþóri með hnífi og stungið hann í andlit og læri. Steinþór hafi síðar náð yfirhöndinni í átökunum og veitt hinum stungusár sem drógu hann til dauða.
Í nóvember fór fram sviðsetning atburðarins með liðsinni sakbornings.