Þetta tilkynnti Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á fundi sýslumannsembættanna á Hotel Natura rétt fyrir hádegi.
Jón Gunnarsson forveri Guðrúnar í starfi og flokksbróðir hennar tilkynnti áform um sameiningu níu sýslumannsembætta fyrir ári síðan. Til stóð að sameina öll embættin á Húsavík undir einni stjórn.
Samkvæmt frumvarpi hans, sem var aldrei lagt fram á Alþingi, áttu áfram að vera starfræktar níu skrifstofur, svokallaðir sýslumenn í héraði.
„Þetta hefur verið umdeilt frumvarp og það var á mínu borði þegar ég kom inn í ráðuneytið í júní. Eftir að hafa yfirfarið það og rætt við samstarfsflokka okkar í ríkisstjórn tel ég einboðið að leggja frumvarpið ekki fram heldur taka það aftur inn í ráðuneytið og skoða það betur í miklu samráði við sýslumenn og starfsmenn sýslumannsembættanna,“ segir Guðrún í samtali við fréttastofu.
Guðrún segir að þrátt fyrir þennan viðsnúning þurfi sýslumannsembættin að ráðast í hagræðingar. Hún segir það ekki endilega þýða uppsagnir.
„Það getur þýtt það en getur líka þýtt, og er það sem ég fyrst og fremst það sem ég vísa í þegar ég tala um hagræðingar, er að við aukum stafræna þjónustu embættanna og ríkisins í heild,“ segir Guðrún.
„Það eru einhverjir sýslumenn að nálgast eftirlaunaaldur og ég vil halda því opnu ef einhverjir sýslumenn hætta eða láta af störfum að ráðherra geti skipað annan sýslumann yfir embættið þannig að við séum ekki að skipa nýjan. “