Erlent

„Síðasti guð­faðir“ sikil­eysku mafíunnar látinn eftir lang­varandi veikindi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregluyfirvöld höfðu leitað Matteo Messina Denaro í 30 ár þegar hann var handtekinn í janúar síðastliðnum.
Lögregluyfirvöld höfðu leitað Matteo Messina Denaro í 30 ár þegar hann var handtekinn í janúar síðastliðnum. Getty/Carabinieri

Matteo Messina Denaro, „síðasti guðfaðir“ sikileysku mafíunnar, er látinn eftir langvarandi veikindi. Frá þessu er greint í ítölskum miðlum. Denaro er sagður hafa borið ábyrgð á nokkrum af ógeðfelldustu glæpum Cosa Nostra.

Pierluigi Biondi, borgarstjóri L'Aquila, staðfesti að Denaro hefði látist á sjúkrahúsi eftir að veikindi hans hefðu versnað. Hann sagði að andlát hans markaði endalok „sögu ofbeldis og blóðbaðs“. Mafíósinn hefði aldrei iðrast og glæpaferill hans hefði verið sársaukafullur kafli í sögu þjóðarinnar.

Denaro hafði verið á flótta undan lögregluyfirvöldum frá 1993 þegar hann var handtekinn á einkastofu í Palermo í janúar síðastliðnum, þar sem hann hafði gengist undir krabbameinsmeðferð sem Andrea Bonafede.

Honum var haldið í öryggisfangelsi í L'Aquila en lagður inn á San Salvatore-sjúkrahúsið í ágúst eftir að heilsu hans hrakaði. Hann er sagður hafa verið í dái yfir helgina.

Denaro fæddist á Sikiley árið 1962 og er sagður hafa blómstrað í „fjölskyldubransanum“. Ólögmæt umsvif hans náðu meðal annars til sorplosunar og vindorkuframleiðslu og er veldi Denaro sagt hafa verið metið á milljarða evra.

Árið 2002 var hann fundinn sekur um að hafa persónulega myrt og/eða fyrirskipað morð á tugum einstaklinga. „Ég fyllti kirkjugarð, einn og óstuddur,“ á mafíósinn að hafa sagt.

Denaro var meðal annars þekktur fyrir að nást ekki á mynd og fjöldi manna sem taldir voru vera Denaro var handtekinn við leit að honum. Hann er sagður hafa birst og horfið aftur víða um heim á árunum sem hann fór huldu höfði og hafa verið í sambandi við samverkamenn sína með því að senda skilaboð á litlum bréfmiðum.

„Ykkur tókst aðeins að handtaka mig vegna veikinda minna,“ sagði Denaro eftir að hann náðist. Hann er sagður taka mörg leyndarmál í gröfina, meðal annars um kringumstæður fjölda morða. Þar hafa meðal annars verið nefndar sprengjuárásirnar þar sem saksóknararnir Giovanni Falcone og Paolo Borsellino létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×