Erlent

Skip­stjórinn dæmdur vegna dauða 27 á Dóná

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið var mannskæðasti skipskaði í Ungverjalandi í hálfa öld.
Slysið var mannskæðasti skipskaði í Ungverjalandi í hálfa öld. Getty

Dómstóll í Ungverjalandi dæmdi í morgun skipstjóra skemmtiferðaskipsins Viking Sigyn í fimm og hálfs árs fangelsi vegna aðildar sinnar að árekstri skipsins og útsýnisbátsins Mermaid á Dóná í höfuðborginni Búdapest þann 30. maí árið 2019. 27 manns fórust í slysinu.

Skipstjórinn er 68 ára úkraínskur karlmaður en skipið Viking Sigyn í eigu norsks félags.

Lögregla í Ungverjalandi greindi frá því á sínum tíma að sjö sekúndur hafi liðið frá árekstrinum og þar til að Mermaid var sokkin.

Skipstjórinn sagði við aðalmeðferð málsins að hann væri miður sín vegna harmleiksins. „Ég get ekki flúið frá minningum um þennan hræðilega harmleik, ég get ekki sofið og ég mun þurfa að lifa með þessu það sem ég á eftir ólifað,“ sagði skipstjórinn.

Leona Németh dómari í dómsal í Búdapest í morgun. AP

Skipstjórinn var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir „gáleysislega hegðun í umferðinni“ á ánni. Hann var sömuleiðis ákærður fyrir að hafa ekki sent út neyðarboð eftir slysið en var sýknaður af þeim ákærulið.

35 manns voru um borð í útsýnisbátnum og létust 27 þeirra. 25 af þeim voru suður-kóreskir ferðamenn, en hinir tveir voru í áhöfn bátsins.

Slysið var mannskæðasti skipskaði í Ungverjalandi í hálfa öld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×